Flokkur:Þjóðsögur
Þjóðsögur Sigurðar í safni Jóns Árnasonar
A.m.k. tveir Kvöldfélagsmenn, Sigurður Guðmundsson málari og Jón Árnason, sem höfðu umsjón með Forngripasafninu fyrstu starfsár þess (1863-1874), [1] unnu líka saman við þjóðsagnasöfnun. Þegar Jón Árnason vann við Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri árið 1860, bjó hann um tíma í sama húsi og bæði Sigurður og Matthías Jochumsson, við Aðalstræti 7. Þeir áttu sameiginlega vini, m.a. Kúld fjölskylduna í Flatey, þar sem Sigurður gisti árið 1858 eftir heimkomuna frá Danmörku. Í Kaupmannahöfn hafði Sigurður líka kynnst Guðbrandi Vigfússyni, Jóni Sigurðssyni og þýskum réttarsögufræðingi Konrad Maurer, sem áttu eftir að eiga mikinn þátt í tilurð safns Jóns Árnasonar. Sigurður hitti svo Maurer aftur í Flatey í ágúst 1858 þegar hann var á leiðinni til Reykjavíkur eftir ferðalag sitt um landið. Á þessu ferðlagi var Maurer að safna efni fyrir Isländische Volksagen der Gegenwart sem kom út árið 1860 og hvatti hann þá Jón og Magnús Grímsson til að halda áfram sinni söfnun.[2] Í þessari bók minnist Maurer nokkrum sinnum á Sigurð sem heimild á þeim sögnum sem hann segir frá (eins og „Djáknin á Myrká“). Í Íslandsferð 1858 (gefin út í þýðingu Baldurs Hafstaðs) þar sem Maurer segir frá ferðalaginu er góða lýsingu að finna af sagnakemmtun hjá Sigurði í Flatey.[3]
Hlutverk Sigurðar í sagnasafninu var ekki lítið, enda var hann einn af aðalheimildamönnum Jóns Árnasonar. Í bréfi sínu til Maurers í nóvember árið 1861 segir Jón að hann væri „Sigurði mjög svo skuldbundinn eins og svo mörgum, sem sögusafnið sýnir” [4]. Sigurður er líka nefndur sérstaklega í inngangi Guðbrands Vigfússonar meðal þeirra sem „oss þykja fara best með sögur og sem þjóðsögur þessar eiga svo mikið að þakka“, við hliðina á Jóni á Gautlöndum, Skúla Gíslasyni, séra Sveinbirni Guðmundssyni, Eiríki Kúld, Gísla Konráðssyni, og Rúnólfi Jónssyni í Vík og fleirum. Þar stendur einnig: „Eftir Sigurð málara Guðmundsson eru nokkrar sögur í safninu og allar merkar og að einhverju leiti einkennilegar“ (JÁ 1862, xxxi). (Sjá sögurnar fyrir neðan.)
Steinamálið
Mynd af Borgasteinum eftir Sigurð málara birtist fyrst sem neðanmálsgrein við söguna um „Legsteininn yfir Kjartani Ólafssyni“ í fyrstu útgáfu af þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar. Mynd Sigurðar (sem endurspeglar áhuga hans á fornleifafræði og skráningu) olli einum erfiðasta árekstri sem átti sér stað milli Jóns Árnasonar, Guðbrands Vigfússonar og Konrad Maurer á útgáfuferlinum. Umræðu þeirra um málið má fylgja í bréfum sem fóru milli mannanna á meðan þeir voru að undirbúa útgáfuna. Kjarni málsins var að Jón vildi nota steina- og rúnamyndir Sigurðar sem fylgiskjal aftan við bókina en hvorki Guðbrandur né Maurer voru sammála þeirri áætlun.[6]
Í bréfi til Konrad Maurer frá 6. nóvember [1960] segir Jón m.a.:
„Um rúnasteinana skal eg ekki vera margorður. Sigurður málari hefir nú tekið fyrir þann steininn, sem hann ætlar að helzt gæti verið tiltök um að gæti verið Kjartanssteinn, og breytt í honum einstöku atriðum og látið hreinskrifa lýsinguna á honum; hún fylgir nú með, ef þér kunnið að vilja nota hana með uppdrættinum af þeim steini, sem áður er til yðar kominn, en sleppa hinum, og senda mér þá ásamt lýsingum þeirra aftur, ef ekki stæði svo á, að neitt fornfræðarit á Þýzkalandi vildi taka lýsingarnar og myndirnar, annaðhvort á íslenzku eða í þýzkri útleggingu, og launa Sigurði ómak að nokkru. Mér er ekkert kappsmál um að rúnasteinamyndir séu teknar ein eða fleiri, að þær og lýsingar þeirra hefðu komið aftan við sem fylgiskjöl. Ef enginn steinn kemur þar eða lýsing, en um aðra er nú ekki að tala en þessa einu, sem nú fer, þarf að strika út neðanmálsgreinina við söguna um Legsteininn yfir Kjartani Ólafssyni. Mér gékk ekki annað til að senda lýsingar þessar og steinauppdrætti, en að þeir kynnu að vekja eftirtekt á íslenzkum rúnasteinum, sem eru miklu fleiri en margir ætla og líklega merkilegri, ef þeim væri safnað að gagni – eg hefi letur af ekki allfáum auk þessara; en þegar yður lízt það ekki eiga við, er eg siður en áfram um að taka þetta inn í safnið eða aftan við það.“ [7]
Listi yfir þjóðsögur Sigurðar í safni Jóns Árnasonar
- ÁLFAR
- Átján barna faðir í álfheimum, 1. bindi, bls. 42-43 (byggð á efni frá Sigurði og Magnúsi Grímssyni)
- Vísur 1. bindi, bls. 129
- SÆBÚAR OG VATNA
- Nykur, 1. bindi, bls. 135-136
- Frá marbendli, 1. bindi, bls. 133-134
- TRÖLL
- Skessulág, 1. bindi, bls. 218
„Grýla reið fyrir ofan garð hafði hala fimmtán, en á hverjum hala hundrað belgi, en í hverjum belgi börn tuttugu“
- APTURGAUNGUR
- Lýsing á Borgasteinum, eptir Sigurð málara Guðmundsson, bls. 1. bindi, bls. 235-237
- „Sjaldan brúkar dauður maður hníf“, 1. bindi, bls. 275-276
- „Fáðu mér beinið mitt, Gunna“, 1. bindi, bls. 237-238
- „Móðir mín í kví kví“, 1. bindi, bls. 225 (byggð á efni frá Magnúsi og Sigurði)
- „Til manns var ég ætluð“, 1. bindi, bls. 225
- „Djákninn á Myrká“, 1. bindi, bls. 280-283
- „Helltu út úr einum“, kút“,1. bindi, bls. 241;
- DRAUGASÖGUR
- Draugum eykst megin
- Miklabæjar-Solveig
- UPPVAKNÍNGAR
- Hjóna-djöfullinn (Eptir sögu Sigurðar málara Guðmundssonar),1. bindi, bls. 347
- TÖFRABRÖGÐ
- Galdrastafir (Glímugaldur), 1. bindi, bls. 452
- (mynd) rúnastafurinn sól með þverstriki yfir legginn 1. bindi, bls. 453
- EINSATKIR GALDRAMENN
- Málmeyjarkonan 1. bindi, bls. 516
- Leirlækjar-Fúsi, bls. 1. bindi, 534-539
- GALDRASÖGUR
- Nesvatn í Hegranesi
- Galdra-Fúsi og Leirulækjar-Fúsi
- DÝRASÖGUR
- Skoffín, skuggabaldur og urðarköttur 1. bindi, bls. 613
- Rjúpan, 1. bindi, bls. 621-622
- GRASASÖGUR
- Reynitré, 1. bindi, bls. 643
- KIRKJUSÖGUR
- Líkabaung, 2. bindi, bls. 68
- GUÐ OG KÖLSKI
- Púkinn á kirkjubitanum, 2. bindi, bls. 4-5
- KÝMNISÖGUR
- „Hver rífur svo lángan fisk úr roði?“, 2. bindi, bls. 543-544
- „Hann bjó“, 2.bindi, bls. 251-252
- ÆFINTÝRI
- „Kerlíng vill hafa nokkuð fyrir snúð sinn“, 2. bindi, bls. 508-509
- NÁTTÚRUSÖGUR
- Skötutjörn
- VIÐBÆTIR
- Eiríkur góði
Tenglar
- Jón Árnason og Sigurður Guðmundsson 1868. “Ýmislegt viðkomandi Fornmenja- og Þjóðgripasafninu í Reykjavík. II. Þjóðólfur, 15 febrúar 1868, bls 53-55.
- Heiða Björk Árnadóttir, Fyrstu íslensku almenningssöfnin Stofnun almenningssafna og mótun íslenskrar nútímamenningar á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Lokaverkefni til MA-gráðu í safnafræði. Reykjavík: Háskóli Íslands, 2012.
Sjá einnig
- Terry Gunnell, „Sigurðar sakna eg lengi; eg man ekki að eg hafi saknað óskylds manns meira”: Hlutverk Sigurðar Guðmundssonar málara í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum (Reykjavík: Þjóðminjasafn Íslands, 2016).
Skýringar
Tilvísanir
- ↑ Heiða Björk Árnadóttir. (2012). Fyrstu íslensku almenningssöfnin Stofnun almenningssafna og mótun íslenskrar nútímamenningar á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta 20. aldar. Lokaverkefni til MA-gráðu í safnafræði. Reykjavík: Háskóli Íslands.
- ↑ Terry Gunnell, „Sigurðar sakna eg lengi; eg man ekki að eg hafi saknað óskylds manns meira”: Hlutverk Sigurðar Guðmundssonar málara í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum; Jón Árnason, Úr förum Jóns Arnasónar, I. bindi. Finnur Sigmundsson. Reykjavík, 1950-1951, bls. 221-255.
- ↑ Bókin kom svo út í íslenskri þýðingu Steinars Matthíassonar í 2015 undir heiti Íslenskar alþýðusögur á okkar tímum.
- ↑ Jón Árnason, Úr förum Jóns Arnasónar, 1. bindi. Finnur Sigmundsson. Reykjavík, 1950-1951, 350.
- ↑ Terry Gunnell, „Sigurðar sakna eg lengi; eg man ekki að eg hafi saknað óskylds manns meira”: Hlutverk Sigurðar Guðmundssonar málara í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum.
- ↑ Terry Gunnell, „Sigurðar sakna eg lengi; eg man ekki að eg hafi saknað óskylds manns meira”: Hlutverk Sigurðar Guðmundssonar málara í Íslenzkum þjóðsögum og æfintýrum; Jón Árnason, Úr förum Jóns Arnasónar, I. bindi. Finnur Sigmundsson. Reykjavík, 1950-1951, bls. 221-255.
- ↑ Jón Árnason, Úr förum Jóns Arnasónar, 1. bindi. Finnur Sigmundsson. Reykjavík, 1950-1951, bls. 259-260.
Síður í flokknum „Þjóðsögur“
Þessi flokkur inniheldur 3 síður, af alls 3.