Bréf (SG02-69)
- Handrit: SG:02:69 Bréf frá Jóni Sigurðssyni til Sigurðar Guðmundssonar
- Safn: Þjóðminjasafn Íslands
- Dagsetning: 8. maí 1863
- Bréfritari: Jón Sigurðsson
- Staðsetning höfundar: Kaupmannahöfn
- Viðtakandi: Sigurður Guðmundsson
- Staðsetning viðtakanda:
- Lykilorð:
- Efni: Safn Sigurðar Guðmundssonar Aðfangabók Þjóðminjasafnsins bls. 39: „Bréf frá Jóni Sigurðssyni, forseta, skjalaverði, Kaupmannahöfn. 13.9 x 21.5 cm. Dagsett 8.5.1863. Efni: Gerð korts & ritgerðar um Alþingisstað hinn forna á Þingvöllum. Enn rætt um möguleika á að Bókmenntafélagið stæði að slíkri útgáfu. Minnst er á möguleika á sambærilegum athugunum á öðrum þingstöðum.”
- Nöfn tilgreind:
_1.jpg|380px|thumb|right|
© Þjóðminjasafn Íslands.]]
- Texti:
bls.1
Khöfn 8. Maí 1863
Háttvirti góði vin,
Það er víst, að mér hafði þótt vænt um að fá bréf frá
yður fyrir laungu síðan, en af því eg er sjálfur latur á
bréfaskriftum þá er eg manna sanngjarnastur að mæta
kríngumstæður í þeim efnum, og þakka eg yður því
innilega þetta seinasta bréfið.
Eg get ekki áfellst yður neitt fyrir þíngvalla
söguna, því bæði er, að hér er um enga keppni að gjöra
frá okkar hlið, og ef það væri, þá yrðum við að hafa
meira kapp á okkur en nú er og meiri efni um leið. Við
gerum hvað við getum svona með hægð. Eg sá ekki að
Dasents kort geri okkur neinn skaða, verði það gott, svo
er það vel farið, verði það vitlaust getum við kannske
bætt það síðar, en það sem við getum gjört, það væri að
fá yðar hjálp til að semja ritgjörð eptir þessa sem þér
hafið safnað bæði úr sögum og frásögnum, það er ágætt,
og fengist þar með kort yfir staðinn tel eg það ekki
síður nauðsynlegt. Þetta á öldúngis við að prenta í
Safni til sögu Íslands, og þar fái þér Honorar fyrir
sjálfsagt. Kannske svo mætti haga því, að þér fengið
deildina á Íslandi til að nefna til menn að dæma um
ritgjörðina, og þegar þeir hafði tekið hana gæti þér fengið
bls. 2
_1.jpg|380px|thumb|right|
© Þjóðminjasafn Íslands.]]
yðar Honorar eptir hendinni, eptir því sem þér skiluðuð handriti.
- Eg segi þetta í því skyni, að eg get ímyndað mér það sé örðugt
fyrir yður að semja alla ritgjörðina og eiga borgun í sjó, þartil
þér gætið sent allt hingað og fengið borgun fyrir. Professorinn
er yður víst velsinnandi, og gefur yður góð ráð eða semur sér
saman við yður um þau efni. – Það er víst sem þér segið, að það
-er ekkert áhlaupaverk að semja þessa ritgjörð til fullnustu,
en eg vil helzt hún sé laung og grinilega með korti einu eða
tveimur, eptir því sem yður finnst haga, því eg vil ætíð í því
efni hreint láta höfundinn ráða, og styrkja hann til að koma
fram tilgángi sínum það sem efni leyfa. – En efni félagsins
ætti þér aptur að styrkja með því, að gjöra allt til þess að
útvega okkur menn til að gánga í félagið, og stuðla til þess
bæði við útlenda og innlenda, svo sem þér getið. Með því móti
af okkur bættist efni, gætum við gert margfalt meira en nú, því
þá gætum við borgað hverjum fyrir sitt verk, og haft þó mart í
veltunni, ef ekki vantaði forsjá þeirra sem fyrir félaginu standa,
og fyrir mitt leyti treysti eg mér til að láta hana ekki vanta
meðan eg er fyrir framan hér hjá okkur.
Um aðra þingstaði væri mjög fróðlegt að fá skýrslur, eða þess-
konar ritgjörðir, og einkum eru þíngstaða pláss merkileg á sumum
stöðum sem menn vita varla af. Þau eru merkileg meðfram vegna
þess, að væri allt vel rannsakað þá má sjá hversu gömul þau eru,
hversu stór, hvort þau hafi vaxið eða mínkað og enda hvenær.
Í þorskafirði eru miklar sagnir um búðaskipan, og svo er kannske
víðar. En látum okkur nú taka alþíng fyrst.
Eg fékk núna fornmenja uppdrætti frá Jóni á Gautlöndum, en
ekki er það neitt sérlegt, samt er það betra að hafa en án að
vera.[1]
Forlátið mér línur þessar og skrifið sem mest og bezt,
yðar einlægur vin
Jón Sigurðsson.
- Gæði handrits:
- Athugasemdir: Bréfið var gefið út í sjá: Matthías Þórðarson: „Bréfaviðskifti Jóns Sigurðssonar forseta og Sigurðar Guðmundssonar málara 1861-1847” Árbók hins íslenzka fornleifafjelags 1929, Reykjavík 1929 bls. 34-107, hér bls. 40-41.
- Skönnuð mynd:
- Skráð af:: Edda Björnsdóttir
- Dagsetning: Júní 2013
Sjá einnig
Skýringar
Tilvísanir
- ↑ Árbók hins íslenzka fornleifafjelags 1929 bls. 99: „Fornmenjauppdrættir frá Jóni á Gautlöndum; það hafa verið uppdrættir þeir eftir Arngrím málara Gíslason af hlutum í Baldursheimsfundinum, sem nú eru í Þjóðminjasafninu; uppdrættirnir eru 8 að tölu, dregnir með svartkrít og blýanti 1861, mjög vel gerðir og sýna listamannshæfileika Arngríms engu síður en sumt annað, sem eftir hann liggur. – Baldursheimsfundur fannst 1860-61. Um hann sjá Þjóðólf 14., nr. 17-18, og Skýrslu um Forngripasafn Íslands I., bls. 7 og 37-51. Hann varð til þess að safnið varð stofnað, 1863, og hlutirnir eru hinir fyrstu (nr.1-11) í safninu, gefnir því af Jóni bónda Illugasyni í Baldursheimi fyrir meðalgöngu Jóns Sigurðssonar á Gautlöndum, en hún varð fyrir áeggjan Jóns Sigurðssonar forseta (í K. höfn), svo sem sjá má af bréfi hans til Jóns á Gautlöndum, dags. 29. júlí 1863, prentuðu í Minningarriti aldarafmælis J. S., bls. 345-47. Jón kemst svo að orði í bréfinu til nafna síns: Forngripina ætti þér sjálfsagt að láta Sigurð Guðmundsson fá heldur en að senda þá hingað. Það gæti verið að Sigurði takist að koma safni á. - Sigurður hafði nefnilega skrifað í Þjóðólf (14., nr. 19-20), rétt eftir að hann hafði birt skýrsluna um fundinn, Hugvekju til Íslendinga útaf fundi þessum og reyndi í henni til að leiða mönnum fyrir sjónir nauðsyn og nytsemi forngripasafns á Íslandi. – Uppdrættir Arngríms komu til Þjóðskjalasafnsins meðal bréfa Jóns Sigurðssonar 1916 og voru afhentir Þjóðminjasafninu af þjóðskjalaverði 6. júlí það ár. – Þetta bréf er áður prentað í Minningarriti J. S., bls. 339-41.
Tenglar