1 bréf (JStilSG 63-17-09)

Úr Sigurdurmalari
Útgáfa frá 25. september 2013 kl. 11:40 eftir Edda (spjall | framlög) Útgáfa frá 25. september 2013 kl. 11:40 eftir Edda (spjall | framlög) (Ný síða: * '''Handrit''': B-1 1863/3 Bréf Jóns Sigurðssonar til Sigurðar Guðmundssonar og Jóns Árnasonar. * '''Safn''': Bréfasafn Þjóðminjasafns Íslands * '''Dagsetning''': 17. septem...)
(breyting) ←Fyrri útgáfa | Nýjasta útgáfa (breyting) | Næsta útgáfa→ (breyting)
Fara í flakkFara í leit
  • Handrit: B-1 1863/3 Bréf Jóns Sigurðssonar til Sigurðar Guðmundssonar og Jóns Árnasonar.
  • Safn: Bréfasafn Þjóðminjasafns Íslands
  • Dagsetning: 17. september 1863
  • Bréfritari: Jón Sigurðsson
  • Staðsetning höfundar: Kaupmannahöfn
  • Viðtakandi: Sigurður Guðmundsson og Jón Árnason
  • Staðsetning viðtakanda: Reykjavík

  • Lykilorð: Forngripasafn Reykjavíkur
  • Efni:
  • Nöfn tilgreind:

Kaupmh. 17. Sept. 1863

  • Texti:

bls. 1


Kaupmh. 17. Sept. 1863
Kæri háttvirti vin,
Eg þakka yður ástsamlega fyrir yðar rækilega og
góða bréf í sumar, sem eg hefi ekki nema litinn
eirin til að svara uppá, og að gratulera að það er
eins og færist nær um forngripasafnið. Guðbrandr
sendir ykkur eitthvað núna, og smásaman fái þið
þó nokkuð meira og meira. Eg talaði við Karl
Andersen, hvort ekki mundi mega takast að fá
héðan nokkuð, og hann hélt það. Það væri heillegra
að hafa sýnishorn af hinu eldra, áður en við komum
til sögunnar, og það er fróðlegt bæði fyrir alþýðu og
mentamenn, að skilja í þessu, sem þeir hafa nú alls
ekkert vit á. Kannske Karl skrifi ykkur, því hann
ráðgerði það hálfvegis, og væri þá kannske rjettast,
að þið skrifuðuð Culutsministerio, Jón Árnason og
þér, og sýnduð hversu nytsamt safn gæti orðið, bæði
til fróðleiks og til að fyrirbyggja tjón forngripa og
svo í almennu vísindalegu tilliti, þareð fornleifar
sem finnast á Íslandi eru í historisku tilliti einna
merkastar, af því þær verða miðaðar við tíma vissan.
Sækja þá um fjárstyrk og um doublet héðan af ýmsu
tægi. Þetta ættuð þið að senda Stiptsyfirvöldunum og

bls. 2


fá þeirra meðmæli og síðan láta þau senda Culturministerio.
Ekki get eg fundið annað um Lögbergisgaunguna, en að
hún hafi verið Processia, sem haldin var þegar allt var undir
búið alþingis setninguna, og er þá fyrst hátíðlega sett þing.
Menn hafa farið í skrúða sinn í þeirri gaungu, og stundum
hefir slettzt upp á menn. – Lýsing sira Björns á alþingis-
staðnum er til enn, einsog allar sóknalýsingarnar, því af
þeim er ekkert brunnið, en það er ekki mikið á að græða.
Eg hefi orðið var við einn forngrip merkilegan, og það eru
steinar lausir með bolla í, sem má kalla Ólafssteina, eða
Ólafs brauð. Þér munið að í jarteiknum Ólafs helga stendur
um brauð sem varð að steini hér í Danmörku, og að þessir
steinar hafi í þá minning verið á Ólafskirkjum. Á mynd
Ólafs konungs á Jónsbókum finnst að hann heldur á einhverju
í annari hendi sem er eins og snigill eða kuðúngur. Það eru víst
steinarnir og eru þrír hver ofan á öðrum, svo efri steinninn
fellur ofan í bollann á hinum. Þar sem hafa verið Ólafs
kirkjur má víst enn finna víða þessa steina, lausa og ekki stóra,
með bolla í, og væri vert fyrir ykkur að gá að þegar það
kemur fyrir.
Ef það væri mögulegt, að fá meira fjárstyrk handa Bók-
mentafélaginu og Félagsritum, þá gætum við hjálpað ykkur
mikið við ykkar dót, og með því ber minna á og verður allt
hægra. Þið ættuð þess vegna að gjöra allt til að útvega okk-
ur styrk, og brúka svo aptur okkar liðveizlu til að útbreiða
það sem þið vilið hafa útbreitt, svo sem ritgjörðir og skýrslur.
Forlátið miðann, og verið kærlega kvaddur.
Yðar einlægur vin
Jón Sigurðsson

bls. 3


P.S. Látið þér búa til Dúkku (brúður) með fullum búningi
frá ýmsum öldum, bæði karla og kvenna!


  • Gæði handrits:
  • Athugasemdir:
  • Skönnuð mynd:

  • Skráð af:: Edda Björnsdóttir
  • Dagsetning: September 2013

Sjá einnig

Matthías Þórðarson: „Bréfaviðskifti Jóns Sigurðssonar forseta og Sigurðar Guðmundssonar málara 1861-1874, með athugasemdur og skýringum”, Árbók hins íslenzka fornleifafjelags 1929, Reykjavík 1929, bls. 34-107. Hér bls. 100: „Bréf í sumar; það er nú ekki víst. – Guðbrandur Vigfússon hefir sent safninu paxspjald og lyklasylgju 1863, nr. 37-38 í safninu. – Karl Andersen var aðstoðarmaður við forngripasafnið í Höfn (Oldnordisk og Etnografisk Museum), og síðar við Rósenborgarsafnið þar; varð þar loks hallarstjóri. Karl var íslenzkur í móðurætt og ólst hér upp; varð stúdent hér. Hann þótti glæsimenni mikið og var talinn dágott skáld með Dönum. Fæddur var hann 1828 og hann dó 1883. – Séra Björn Pálsson á Þingvöllum samdi sóknarlýsing þar fyrir Bókmentafélagið 1840 og er hún nú í handritasafni þess í Landsbókasafninu, nr. 19. fol. – Brunnið, nefnilega 1847, þegar brann mikið af bókum Bókmentafélagsins. Skýrsla um brunann er í skýrslum og reikningum félagsins 1847, bls. 8-13, prentuð í Skírni 1848. Ólafssteinar; Jón ræðir meira um þá í Fornbréfasafninu, I., bls. 710 nm. Hann setur þar fram það álit sitt, að blótbollinn frá Þingvöllum, sbr. aths. við bréf nr. 1, sé hinn neðsti af 3 Ólafssteinum. Þetta virðist varla geta staðizt, og engir bollasteinar, sem hér þekkjast, með slíkri stærð, virðast geta verið þess konar Ólafssteinar. Jafnvel ekki hinir litlu bollasteinar heldur, sem munu vera steikolur; sbr. Leiðarvísi um Þjóðminjasafnið, bls. 44-45. – Hafi nokkur af þeim líkneskjum heilags Ólafs konungs, er til voru hér á landi, haft þessa einkunn, þá hefir hún vafalaust verið skorin úr tré, sem líkneskjan sjálf, verið á hendi hennar og við hæfi að stærð.- Sbr. enn fremur Kalund, Isl. Beskr. I., bls. 147. – Bls. 45. Sigurður hafði áhuga á að taka ráði Jóns um búnings-brúðurnar í Forngripasafninu, sbr. bréf nr. 14; en safnið var nú í fæðingu, húsnæðislaust og félaust.”

Skýringar

Tilvísanir

Tenglar