„… því hér er nóg að hugsa
fyrir þann sem eitthvað vill nema.“
(Sigurður Guðmundsson málari, um höfuðstaðinn, í bréfi til Steingríms Thorsteinssonar 26. júlí 1870.)
Í nóvember 2017 kom út bókin Málarinn og menningarsköpun: Sigurður Guðmundsson og Kvöldfélagið 1858-1874. Í henni eru 17 ritrýndar greinar, hluti afrakstrar fimm ára rannsóknarverkefnis þar sem rýnt var í störf og áhrif Sigurðar Guðmundssonar málara og Kvöldfélagsins í Reykjavík. Bókin er rétt um 600 blaðsíður að lengd, í henni eru u.þ.b. 140 myndir, en auk þess geymir hún ítarlega heimildaskrá sem spannar rúmlega 30 blaðsíður. Þjóðminjasafn Íslands gaf bókina út (í samstarfi við bókaútgáfuna Opnu).
Greinarnar í Málarinn og menningarsköpun bæta nýjum víddum í sýn á markvissar aðgerðir Sigurðar og Kvöldfélagsins í sköpun þjóðlegrar menningar á Íslandi sem skilgreinir ímynd þjóðarinnar enn í dag. Í henni má sjá samhengi við umræðu og pólitík í Kaupmannahöfn og eins endurómun og áhrif alþjóðlegra hreyfinga. Höfundarnir skoða áhrif þessa merkilega starfs á leikhús, þjóðsagna- og forngripasöfnun, hönnun, þjóðlega búninga, þjóðfélagslega umræðu og fleira.
Höfundar:
Arndís A. Árnadóttir, Edda Björnsdóttir, Eiríkur Valdimarsson, Elsa Ósk Alfreðsdóttir, Guðmundur Hálfdanarson, Karl Aspelund, María Kristjánsdóttir, Olga Holownia, Ólafur Engilbertsson, Sigurjón Baldur Hafsteinsson, Sveinn Einarsson, Sveinn Yngvi Egilsson og Terry Gunnell.
Ritstjórar: Karl Aspelund og Terry Gunnell.
Málarinn og menningarsköpun var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Viðtöl og umfjöllun: