Um verkefnið

Menningarsköpun:
Fræðilegir áhrifavaldar, uppsprettur, innblástrar
og langtímaáhrif menningarsköpunar
Sigurðar málara og Kvöldfélagsmanna
1857 – 1874

Verkefnið hafði að markmiði að ættfæra fræðilegan grundvöll og skilgreina langtímaáhrif menningarsköpunar meðlima Kveldfélagsins í Reykjavík (1861 – 1874) með víðfeðm áhrif og fjölbreytt störf Sigurðar „málara“ Guðmundssonar í forgrunni. Kannað var hvernig hugmyndafræði og kenningar fóru milli manna — innanlands sem utan — með því að athuga tengslanet félaganna, bréfaskriftir og lestur. Með þessu má draga upp eins skýra mynd af ferli hugmyndanna og unnt er og þannig skilgreina nákvæmar hugmyndafræðilegan uppruna þeirrar menningarsköpunar sem Kveldfélagsmenn tóku sér fyrir hendur. Upp frá því má síðan rannsaka með nokkurri nákvæmni langtímaáhrif Kveldfélagsins á íslenska menningu. Með því að líta á íslensku menntamennina í stærra samhengi hreyfinga í hugmyndafræði á meginlöndunum til beggja handa, veitir verkefnið skýrari sýn á sögu rómantískra þjóðernissinna og kemur henni fyrir í stærri hugmyndasögu með alþjóðlegum straumum kenninga sem skolaði yfir iðnvædd vestræn ríki um miðja 19. öld. Niðurstöður rannsóknarinnar setja íslensku höfundana, skáldin, kennarana, prestana og málarann, inn í stærri, skýrari ramma þar sem alþjóðlegra áhrifa gætir. Þannig má gera sér vonir um að rannsóknin geti stutt við svipaðar rannsóknir utan Íslands.

Að verkefninu standa:

  • Terry Gunnell (Háskóli Íslands)
  • Karl Aspelund (University of Rhode Island og Háskóli Íslands)
  • Sigurjón B. Hafsteinsson (Háskóli Íslands)
  • Sveinn Yngvi Egilsson (Háskóli Íslands)
  • Sveinn Einarsson (sjálfstætt starfandi)

Í samvinnu við og með góðvilja:

Lýsingu verkefnisins er að á heimasíðu Rannís.

Þær upplýsingar og samskiptin sem hér fara fram eru á vegum einstaklinganna sem að verkefninu koma og eru ekki á ábyrgð stofnananna sem þeir starfa við.